Hvaða þjónustu býður Leigulistinn uppá fyrir leigusala?

Leigulistinn býður upp á 3 leiðir fyrir leigusala:

  • Íbúðin er skráð á listann, leigusali velur sjálfur leigjanda og gengur frá leigusamningi. Þessi þjónusta er leigusölum að kostnaðarlausu, m.ö.o. ekkert gjald er tekið fyrir að skrá íbúðina á Leigulistann og koma henni þannig á framfæri.
  • Leigulistinn gengur frá leigusamningi, en leigusali sér sjálfur um að finna leigjanda. Kostnaður við þessa þjónustu er 40% af eins mánaðar húsaleigu fyrir þá fasteign sem um ræðir, en þó aldrei lægri en kr.50.000.- + vsk.
  • Umboðsleiga - Leigulistinn tekur íbúðina í umboðsleigu, þ.e við komum og tökum myndir, sýnum íbúðina, veljum leigjanda í samráði við leigusalan, sjáum um að tryggingar séu í lagi, útvegum öll nauðsynleg gögn og göngum frá leigusamningi, þú hallar þér aftur í sætinu og slappar af.

Hvernig nýskrái ég mig til þess að fá aðgang að Leigulistanum?

Þú ferð í nýskráningu, þar kemur þjónustusamningur sem þarf að samþykkja. Eftir það þarft þú að setja inn kennitöluna þína, velja lykilorð (a.m.k. 6 stafir) og hvort þú viljir borga með korti eða millifæra.

Hvernig endurnýja ég aðganginn að listanum?

Ef þú ert ennþá með aðgang þá getur þú smellt á takkann “Endurnýja” undir mínar síður. Sé áskriftin hins vegar runnin út þá ferðu eins og áður í nýskráningu. Ef þú endurnýjar aðganginn innan tveggja vikna frá því að aðgangurinn rann út þá færðu nýjan mánuð á endurnýjunargjaldinu sem er kr. 2.800,-  Eftir þann tíma þarf að greiða fullt gjald að nýju sem er kr. 4.700,-

Af hverju eru eignir enn skráðar sem eru farnar í útleigu?

Því miður getur alltaf komið fyrir að eignir sem eru á skrá séu komnar í útleigu. Nú geta eigendur sjálfir afskráð eignir um leið og þær leigjast, eða láta okkur vita um leið og eignir fara í útleigu svo hægt sé að afskrá eignirnar, en það vill gleymast í hita leiksins! Við höfum reglulega samband við leigusala til þess að kanna hvort eignirnar séu enn lausar, en við getum ekki tryggt að skráðar eignir séu farnar í útleigu frekar en eignir sem auglýstar eru í blöðunum. Þetta er sérstaklega tekið fram í þjónustusamningi okkar, sem þarf að samþykkja þegar sótt var um aðgang að Leigulistanum.

Hver er skattprósentan af leigutekjum?

Leigutekjur teljast til fjármangstekna og lúta sömu skattprósentu og fjármangstekjur. Skattstjórinn ætti að geta gefið nákvæmar upplýsingar um þá skattaprósentu sem á við á hverju sinni, en þegar þetta er skrifað er skattprósentan 20%.

Hvaða rétt hef ég til húsaleigubóta ?

Smelltu á tengilinn hér að neðan og þá færðu upp upplýsingarbækling um húsaleigubætur.
http://www.velferdarraduneyti.is/media/acrobat-skjol/Leiga10.pdf

Hvernig skrái ég eignina mína inn á listann hjá ykkur?

Til að skrá íbúð inn á Leigulistann, er farið í skrá eign til leigu, takki efst á síðunni. Þegar þú smellir á hann þá færðu upp form þar sem þú skráir inn allar upplýsingar um íbúðina.

Hver er munurinn á tímabundnum og ótímabundnum leigusamningi.

Tímabundinn samningur er bundinn í tíma, þ.e. tímalengd hans er fyrirfram ákveðin og er honum í raun sagt upp um leið og hann er gerður (engin uppsögn nauðsynleg).
Ótímabundin samningur er hins vegar eins og nafnið bendir til, ekki bundinn í tíma og hefur hann því fyrirfram ákveðinn uppsagnarfrest, sem er 6 mánuðir á báða bóga fyrstu 5 ár leigutímans.

Hvernig tryggingar eru algengastar?

Algengast er að farið sé fram á bankaábyrgð uppá 2-3 mánuði af húsaleigu. Tryggingarvíxlar með ábyrgðarmönnum, sem eiga helst fasteign, eru einnig ennþá við lýði og nokkuð mikið notaðir, sem og tryggingarfé inn á bók, sem er ódýrari kostur en bankaábyrgð. Bendum sérstaklega á að bankaábyrgðir sumra banka ábyrgjast ekki lengur skemmdir sem kunna að verða á eigninni - kynnið ykkur málið.

Í hvaða hverfum er verðið hæst?

Verðið er hæst miðsvæðis á svæðum 101,107,105,104,103. Verðið er einnig nokkuð hátt í Kópavogi, en lægra í Breiðholtinu, Grafarholtinu og Mosfellsbæ svo dæmi séu tekin.

Hvaða leiguíbúðir er auðveldast að leigja?

Það er auðveldast að leigja 2 -3.herbergja íbúðir.

Ef íbúðin er til sölu og hún selst á leigutímanum, hvernig er leigusamningurinn gerður?

Þá er tekið fram í samninginum að það sé 3 mánaða uppsagnarfrestur komi til þess að íbúðin seljist á leigutímanum í tímabundnum samningi.

Hvernig afskrái ég íbúðina?

Það er gert undir mínar síður, breyta - afskrá eign.

Hvar þinglýsi ég leigusamningi?

Hjá viðkomandi sýslmanns embætti; í Reykjavík er það hjá sýslumanninum í Reykjavík, í Kópavogi hjá sýslumanninum í Kópavogi o.s.frv.

Hvar get ég nálgast leigusamningseyðublöð ?

Á heimasíðu Leigulistans undir Upplýsingar og þar undir Tenglar.

Hvaða þjónustu bjóðið þið upp á fyrir leigjendur?

Sú þjónusta sem við bjóðum upp á fyrir fólk sem er að leita sér að íbúð er eins mánaðar aðgangur að Leigulistanum, sem er listi yfir allar eignir sem við erum með á skrá þegar listinn er keyptur og síðan aðgangur að öllum eignum sem koma á skrá næsta mánuðinn eftir að áskriftin er keypt. Aðgangur að listanum kostar kr. 4.700,- fyrir eins mánaðar áskrift að höfuðborgarsvæðinu og 4.900 kr. fyrir 2 mánaða áskrift að landsbyggðinni. Bendum á að það sem þú sérð á Leigulistanum, án aðgangs, er einungis sýnishorn af þeim eignum sem við erum með á skrá.

Einfaldast er að fara inn á www.leigulistinn.is og nýskrá sig, það er líklegt til árangurs.